Gönguferð á Arnarvatnsheiði: Hraun – Hellar – Heiði
Bakpókaferð 6 dagar – 5 nætur
Ferðabændur á Brekkulæk hafa í rúm 35 ár skipulagt gönguferðir yfir Arnarvatnsheiði fyrir erlenda ferðamenn. Síðastliðin 15 ár hefur Ferðafélag Íslands í samvinnu við Arinbjörn á Brekkulæk boðið uppá þessar ferðir sem hefur verið vel tekið af Íslendingum. Um er að ræða þriggja skóa gönguferð á vegleysum með einhvern farangur á bakinu. Tilvalið fyrir göngufólk að koma með í svona ferð og kynnast einu fáfarnasta svæði landsins. Gönguleiðin liggur upp með Norðlingafljóti, með Hallmundarhraun á hægri hönd og víðerni, Arnarvatnsheiðar og Tvídægru á vinstri hönd. Yfir öllu gnæfir Eiríksjökull, en Langjökull líður framhjá frá austri og hverfur sjónum inn í Jökulkróki. Gengið verður í eina fegurstu náttúrusmíð landsins, gíginn Hallmund efst í Hallmundarhrauni og einnig upp á jökulstallana vestan Langjökuls. Síðan liggur leiðin norðvestur Arnarvatnsheiði, eitt stærsta votlendissvæði landsins. Vatnaskilum er fylgt og gengið um þurrlendi. Veitt í matinn og nærst á gjöfum jarðar. Útihátiðir og umferðaröngveiti eru víðsfjarri, en óbyggðakyrrð og víðerni miðhálendisins bjóða upp á einstaka upplifun um Verslunarmannahelgina.
Gist er í skálum og þar bíða vistir. Ekki þarf að bera neinn mat. Fararstjóri: Maríus Þór Jónasson
Myndasafn